Hvaða vesen er þetta á Google Analytics?

Mun Google virkilega loka á eldri vefmælingar frá 1. júlí?

26.06.2023

Þú hefur kannski tekið eftir því að það eru breytingar í farvatninu hjá Google Analytics vefmælingum sem vefstjórar þurfa að bregðast við. Núna er verið að hamra á því í tölvupóstum og Analytics skýrsluviðmótinu að eldri mælingarleiðir muni hætta að virka 1. júlí næstkomandi.

Fjölmargir vefir, þar á meðal hátt hlutfall íslenskra vefja, eru að nýta sér mælingalausnir frá Google Analytics. Margir vefir hafa verið með sömu uppsetninguna árum saman, en nú er Google að ýta notendum yfir í að nota nýjustu útgáfu mælinganna; fjórðu kynslóð eða „GA4“.

Við höfum orðið vör við það að á a.m.k. sumum vefjum er Google sjálfkrafa að búa til ný GA4 mælingasöfn (e. property) og tengja við núverandi kóða, þannig að gögn skili sér sjálfkrafa inn í GA4. Við mælum samt sem áður með því að farið sé í gegnum viðmótið sem Google býður til að stilla uppfærslu í GA4 nálgunina, eða að minnsta kosti að farið sé vel yfir þær forsendur sem Google gæti hafa gefið sér við svona sjálfvirka breytingu.

Ef vefir eru að nota einhverjar sérsniðnar skýrslur eða mælingar þá er munurinn á nýju nálguninni og þeim eldri það mikill að sjálfvirkar reddingar munu ekki ná að yfirfæra slíkt að fullu og þarf því sérstaklega að huga að uppsetningu GA4.

Hvað verður um gögnin?

Frá og með 1. júlí munu notendur sem reiða sig á Google Analytics viðmótið þurfa að skoða tölur fyrir og eftir yfirfærsluna í GA4 í sitthvoru lagi. Skýrsluviðmótið býður ekki upp á sameiginlega sýn á þessi gögn, en hægt væri að púsla slíku saman í öðrum tólum.

Þetta stafar í grunninn af því hvað forsendur að baki GA4 eru ólíkar eldri nálgunum og að samanburður við eldri mælingar yrði alltaf dálítið eins og að bera saman epli og appelsínur (eða einhverja aðra skylda en ólíka ávexti).

Er Analytics endilega rétta nálgunin?

Það hefur ýmislegt breyst á þeim árum sem eru liðin síðan Google kynnti fyrst Analytics og gerði eiginlega að sjálfgefinni leið til notkunarmælinga. Eitt af því er meiri vitund um persónuvernd og því fylgir að sífellt fleiri notendur velja að loka sjálfkrafa á vefmælingar Google og við erum því aldrei að fá tæmandi upplýsingar um raunnotkun ef við reiðum okkur á Google Analytics eingöngu.

Það eru fjölmargir samkeppnisaðilar Google á þessum markaði, en til að nefna eitt dæmi höfum við innleitt notkunarmælingar frá Plausible.io á vefjum margra okkar viðskiptavina með góðum árangri. Sú lausn gerir ekki kröfu um samþykki notenda og safnar þeim notkunartölum sem flestir þurfa á að halda.

Kannski eru þessi tímamót hjá Google ágæt áminning um að yfirfara hvað nákvæmlega það er sem við viljum fá úr okkar notkunarmælingum og hver er rétta leiðin til þess. Fyrir suma er það Google Analytics, fyrir aðra einhver önnur lausn og í einhverjum tilvikum bæði.

Við hjá Hugsmiðjunni höfum tekið saman ítarlegar leiðbeiningar um uppfærsluna úr eldri mælileiðum í GA4. Athugið að Hugsmiðjan hefur ekki möguleika á að uppfæra vefmælingar sjálfkrafa, því þurfa viðskiptavinir okkar að setja sig í samband við okkur ef þeir óska eftir aðstoð við uppfærslu: hjalp@hugsmidjan.is